Innlent

Andrés Jónsson sá stolið hjól sitt auglýst á Bland

Jakob Bjarnar skrifar
Andrés almannatengill sá, sér til nokkurrar furðu, hjólið sitt auglýst á sölutorgi Bland.is.
Andrés almannatengill sá, sér til nokkurrar furðu, hjólið sitt auglýst á sölutorgi Bland.is.
Andrés Jónsson almannatengill rak upp stór augu þegar hann sá hjól, sama hjól og hafði verið stolið frá honum, auglýst á Bland-vefnum þar sem höndlað er með ýmsan varning.

Þetta var fyrir rétt rúmri viku og skrifaði Andrés í kjölfarið athyglisverð skilaboð til vina sinna á hinum galopna og opinbera vettvangi Twitter: „ég var að senda þjófnum sem stal fína hjólinu mínu skilaboð á Bland. Sá veit ekki að ég er á leiðinni að sækja það en ekki kaupa það.“ Síðan setur Andrés myllumerki og „frh“ – sem gefur lesendum hans tilefni til að ætla að málinu sé ekki lokið. Samkvæmt heimildum Vísis stóð til að Andrés og þjófurinn myndu hittast á laugardaginn síðasta.

Andrés hafði fullan hug á að hitta þjófinn, og ræða við hann hrútshornum tveimur, en vill nú ekki segja til um lyktir máls.
Þetta vakti að vonum verulega athygli á Twitter og Vísir hafði samband við Andrés sem ekki vildi tjá sig um málið þá, þó hann hafi greint undan og ofan af því á opinberum vettvangi, því hann vildi ekki styggja þjófinn. Þó hann hafi hætt á að viðkomandi þjófur/sölumaður hafi ekki aðgang að Twitter. Andrés taldi ekki rétt að fjölmiðlar fjölluðu um málið; í sjálfu sér ekki hægt annað en taka tillit til þess – ekki vert að skaða þjófaveiðarnar með ótímabærum fréttaflutningi.

Vinir Andrésar á Twitter leggja til ráðleggingar og áskoranir, um að höfð verði til taks falin myndavél. Fjörlegar umræður spunnust og Andrés lofar því að atburðir verði með þeim hætti að þeir verði í frásögur færandi. Vísir bauðst til þess að leggja til ljósmyndara sem væri með í för en Andrés taldi það af og frá.

Síðan hefur ekkert spurst. Hvað gerðist?Þeirri spurningu verður ekki svarað í bráð því þegar loks náðist í Andrés nú fyrir stundu vegna málsins, til að fá frekari botn í það og lyktir: Hvort samkomulag, sættir, hafi tekist með Andrési og ránsmanninum, afþakkaði hann að tjá sig frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×