Innlent

Illugi skrifar reiðhjólaþjófi: „Dóttir mín á þetta hjól, ekki þú“

Bjarki Ármannsson skrifar
Illugi biðlar til netverja að deila þessari mynd af hjóli Veru, sem er nokkuð auðþekkjanlegt.
Illugi biðlar til netverja að deila þessari mynd af hjóli Veru, sem er nokkuð auðþekkjanlegt. Vísir
„Það býr nú í þér heiðarleg taug, er það ekki?“ skrifar Illugi Jökulsson rithöfundur í bloggfærslu á Eyjunni sem ber heitið Kæri þjófur. Hann skrifar til hverrar þeirrar manneskju sem stal reiðhjóli dóttur hans, Veru Illugadóttur fréttamanns, nú á dögunum.

„Fyrir tæpum sólarhring eða svo stalst þú þessu hjóli við Leifsgötu tíu í miðborg Reykjavíkur,“ skrifar Illugi og birtir mynd af hjólinu, sem er nokkuð auðþekkjanlegt. „Það er hún Vera dóttir mín sem á þetta hjól, ekki þú. Það var ekki hugsun hennar að vinna sleitulaust í lengri tíma svo þú gætir eignast hjól. Né heldur hefur hún nostrað við það síðan, svo þú getir verið að sperra þig á því á götunum.“

Að sögn Illuga þykir Veru mjög vænt um hjólið og saknar þess. Hann biðlar til þjófsins að skila því einfaldlega aftur til eiganda þess.

„Þú gætir skutlast með það aftur á Leifsgötu, eða látið annaðhvort okkar vita hvar hægt væri að nálgast það,“ skrifar Illugi. „Við erum bæði auðfinnanlega á Facebook, til dæmis. Gerðu þetta nú – þetta er ekki þitt hjól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×