Enski boltinn

Eigandi Leeds sektaður fyrir skattsvik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Massimo Cellino, eigandi enska B-deildarfélagsins Leeds, var í dag sektaður um 5,9 milljónir króna fyrir skattsvik.

Cellino flutti inn Range Rover-bifreið frá Bandaríkjunum til Ítalíu en greiddi engan virðisaukaskatt af henni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn 58 ára Cellino kemst í kast við lögin fyrir skattsvik en sami dómari í Cagliari dæmdi hann í fyrra sekan fyrir að greiða ekki skatt af snekkju sinni og sektaði hann um 88,5 milljónir króna.

Forráðamenn ensku B-deildarinnar settu hann í fjögurra mánaða bann vegna þess máls en það má reikna með því að þeir bregðist aftur við þessum nýjustu tíðindum af skattsvikum Ítalans skrautlega.

Eigendur knattspyrnufélaga í deildinni verða að standast kröfur deildarinnar um heiðarleika. Af þeim ástæðum er hægt að dæma þá í bann ef þeir verða uppvísir að ósæmilegri hegðun, svo sem lögbrotum.

Það sér þó ekki enn fyrir endann á vandræðum Cellino því hann þarf síðar á þessu ári, þann 16. október, að mæta fyrir rétt vegna meintra skattsvika í tengslum við aðra snekkju sem er í hans eigu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×