Innlent

Snúðu „lukkuhjóli“ með pyntingaraðferðum á Austurvelli

Bjarki Ármannsson skrifar
Lukkuhjólið er sagt svipað því sem lögreglan á Filippseyjum notaðist við árið 2014 til að skera úr um hvernig best væri að pynta fanga.
Lukkuhjólið er sagt svipað því sem lögreglan á Filippseyjum notaðist við árið 2014 til að skera úr um hvernig best væri að pynta fanga. Mynd/GVA/Amnesty
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International mun á föstudaginn næsta, alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna til stuðnings þolendum pyntinga, stilla upp eftirlíkingu af lukkuhjóli á Austurvelli klukkan þrjú. Lukkuhjólið er sagt svipað því sem lögreglan á Filippseyjum notaðist við árið 2014 til að skera úr um hvernig best væri að pynta fanga.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty verður gestum og gangandi boðið að „spreyta“ sig á hjólinu, en í stað þess að vinningar bíði þeirra, munu þeir geta sett sig í spor fanganna á Filippseyjum.

Undirskriftum verður einnig safnað á Austurvelli til stuðnings þroskaskertum pilti á Filippseyjum sem pyntaður var af lögreglu árið 2012, auk þess sem ungliðar munu standa fyrir aðgerð í Kringlunni á laugardag milli eitt og fjögur.

Ísland er eitt þeirra 55 landa þar sem aðgerðarsinnar stefna á að koma saman á föstudaginn til að minna heiminn á að þúsundir einstaklinga um heim allan sæta pyntingum á hverjum degi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×