Lífið

Nöfnin Alice og Charlotte þykja líklegust

Stefán Árni Pálsson skrifar
Katrín leit vel út eftir fæðinguna.
Katrín leit vel út eftir fæðinguna. vísir/getty
Katrín, hertogaynja af Cambridge, fæddi stúlkubarn á St Mary's spítalanum í London á laugardagsmorgun. Barnið kom í heiminn um klukkan hálfníu og var 15 merkur.

Breskir miðlar fjölluðu um fátt annað en þetta nýfædda barn um helgina og núna velta þeir fyrir sér hvað barnið eigi að heita. Veðmálafyrirtækin taka öll þátt og er hægt að leggja pening undir.

Sjá einnig: Prinsessa fædd í London

Á veðmálasíðunni Paddy Power þykja nöfnin  Alice og Charlotte líklegust en Alice er með stuðulinn 11/4 og Charlotte með 3/1.

Prinsessan er sú fjórða í röðinni til að erfa bresku krúnuna, á eftir afa sínum, Karli Bretaprins, pabba og bróður, Georgi prins.

Finna má bæði þessi nöfn í bresku sögunni en önnur dóttir Viktoríu Bretadrottningar hét Alice. Charlotte Bretadrottning fæddist árið 1744 og notaði hún nafnið þrátt fyrir að vera skírð Sophie.

Athygli vekur að nafn Díönu prinsessu þykir ekki svo líklegt en stuðulinn sem fylgir því er 14/1. Díana var móðir Vilhjálms prins en hún lést í bílslysi í París 31. ágúst 1997.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×