Fótbolti

Zimbabve dæmt úr leik í undankeppni HM 2018

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zimbabve hefur aldrei komist í lokakeppni HM. Líklega verður engin breyting þar á í Rússlandi 2018.
Zimbabve hefur aldrei komist í lokakeppni HM. Líklega verður engin breyting þar á í Rússlandi 2018. vísir/afp
FIFA hefur meinað Zimbabve þátttöku í undankeppni HM 2018 vegna þess að knattspyrnusamband landsins skuldar Jose Claudinei Georgini, fyrrverandi landsliðsþjálfara, laun.

Xolisani Gwesela, fjölmiðlafulltrúi knattspyrnusambands Zimbabve (ZIFA), segir að ZIFA muni áfrýja úrskurðinum.

Fjárhagsstaða ZIFA er afar slæm en sambandið skuldar rúmlega 2,7 milljónir punda. Talið er að Claudinei, sem stýrði landsliði Zimbabve frá janúar til nóvember 2008, eigi 45000 pund inni í laun frá ZIFA.

Claudinei er ekki eini fyrrverandi landsliðsþjálfari Zimbabve sem á inni laun hjá ZIFA, en sambandið skuldar einnig fyrrum landsliðsþjálfurunum Tom Saintfiet og Sunday Chidzambwa pening.

Undankeppnin í Afríku hefst í október en dregið verður í fyrstu umferð hennar í júlí.

Zimbabve hefur aldrei komist í lokakeppni HM en liðið lenti í neðsta sæti í sínum riðli í undankeppni HM 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×