Enski boltinn

Aron fór meiddur út af í tapi Cardiff | Kári skoraði í sigri Rotherham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar fór meiddur af velli.
Aron Einar fór meiddur af velli. vísir/getty
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fór meiddur af velli eftir hálftíma leik þegar Cardiff tapaði 1-2 fyrir Charlton í Íslendingaslag í ensku B-deildinni í dag.

Cardiff náði forystunni með marki Federico Macheda á 56. mínútu en Tony Watt jafnaði á þeirri 74. Það var svo Yoni Buynes sem skoraði sigurmark Charlton þremur mínútutum fyrir leikslok.

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn fyrir Charlton sem er í 12. sæti deildarinnar. Cardiff er í því 15. en fjórum stigum munar á liðunum.

Kári Árnason skoraði þegar Rotherham vann mikilvægan sigur á Huddersfield á útivelli. Lokatölur 0-2, Rotherham í vil.

Kári skoraði fyrra markið mínútu fyrir hálfleik, eftir fyrirgjöf frá Jack Hunt.

Þetta var annað mark landsliðsmannsins í síðustu þremur leikjum Rotherham en hann skoraði sigurmarkið gegn Millwall á síðasta degi febrúar-mánaðar.

Conor Sammon bætti öðru marki við á 60. mínútu og gulltryggði sigur Rotherham. Engu breytti að Lee Frecklington var rekinn út af á 74. mínútu.

Með sigrinum komst Rotherham upp í 20. sæti deildarinnar en liðið er nú níu stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×