Fótbolti

Cannavaro í tíu mánaða fangelsi fyrir að stíga inn í eigið hús

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fabio Cannavaro er í veseni.
Fabio Cannavaro er í veseni. vísir/getty
Fabio Cannavaro, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Ítalíu í fótbolta, hefur verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að fara inn í eigið hús sem gert hafði verið upptækt af ríkinu.

Rannsókn hefur verið í gangi undanfarna mánuði á fjármálum Cannavaro en hann er grunaður um stórfelld skattsvik.

Í október á síðasta ári var hús sem hann á í Napólí gert upptækt ásamt fleiri munum sem hann og eiginkonan eru skráð fyrir. Hann lét sér ekki segjast og var gripinn í húsinu.

Það varð til þess að hann var dæmdur í tíu mánaða fangelsi. Auk þess var bróðir hans, Paolo, sem leikur með Sassuolo á Ítalíu, og konan hans, Daniele Arenoso, dæmd í skilorðsbundið fangelsi.

Öll þrjú hafa áfrýjað dómnum og eru því frjáls ferða sinna þar til lokaúrskurður verður kveðinn upp.

Það eru góð tíðindi fyrir kínverska meistaraliðið Guangzhou Evergrande, en Cannavaro, sem var fyrirliði heimsmeistaraliðs Ítalíu 2006, er þjálfari þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×