Innlent

Foreldrar í Breiðholti ósáttir: Skora á borgaryfirvöld að endurskoða gildandi reglur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Foreldrafélög í öllum grunnskólum í Breiðholti skora á Reykjavíkurborg að endurskoða núverandi afstöðu til afhendinga gjafa til barna í grunnskólum. Um er að ræða gjafir sem snúa að öryggi, fræðslu og lýðheilsu þeirra og til kynninga innan veggja grunnskóla sem hafa samfélagsþáttöku forvarnir og fræðsu að markmiði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá foreldrafélögunum.

Foreldrafélögin segja gildandi reglur of strangar, þær komi niður á börnunum og leiði til mismununar. Því sé mikilvægt að utanaðkomandi aðilar fái með leyfi skólastjórnenda heimild til að heimsækja grunnskólana og kynna mikilvæga starfsemi og forvarnir sem stuðli að fræðslu og samfélagsþátttöku. Það sé fullkomlega á færi skólastjórnenda, í samvinnu við stjórn foreldrafélags viðkomandi skóla, að meta og þekkja muninn á óæskilegri markaðssetningu annars vegar og málefnum er varða öryggi og lýðheilsu hins vegar.

Þá er bent á að huga verði að börnum er standa höllum fæti. Mikilvægt sé að þráðurinn til barna og fjölskyldna þeirra verði styrktur og að varhugavert sé að hann sé slitinn.



Tilkynninguna í heild má lesa hér fyrir neðan.



Fyrir hönd allra foreldrafélaga í grunnskólum í Breiðholti skorum við á yfirvöld borgarinnar að endurskoða núverandi afstöðu til afhendinga gjafa til barna sem snúa að öryggi, fræðslu og lýðheilsu þeirra og til kynninga innan veggja grunnskóla sem hafa samfélagsþátttöku, forvarnir og fræðslu að markmiði.



Í öllum skólum borgarinnar eru börn sem standa höllum fæti. Þetta eru börn sem koma ekki á bekkjarsamkomur, mæta ekki á viðburði á vegum foreldrafélags, mæta jafnvel ekki í afmæli bekkjarfélaga, nýta ekki frístundakort, taka ekki þátt í íþróttastarfi eða öðru skipulögðu tómstundastarfi utan skóla, nýta ekki gjaldfrjálsar tannlækningar og fara ekki á Vetrarhátíð svo fátt eitt sé nefnt.

Við viljum benda á að börn og fjölskyldur þeirra sem mæta ekki á viðburði eftir skólatíma á vegum foreldrafélags mæta hins vegar þegar stjórnendur boða til viðburða á vegum skólans. Að okkar mati er því mikilvægt að þráðurinn frá skólanum til barna og fjölskyldna þeirra verði styrktur og varhugavert er að hann sé slitinn.

Okkur er sérstaklega umhugað um þessi börn. Besta leiðin til að auðga líf þeirra og ná til fjölskyldnanna er í gegnum skólann og starfsmenn hans. Reglurnar sem gilda í dag eru of strangar, þær koma niður á börnunum og leiða til mismununar. Þannig vinna þær gegn markmiði okkar um að styðja börn til aukinna lífsgæða. Því teljum við mikilvægt að utanaðkomandi aðilar fái, með leyfi skólastjórnenda, heimild til að heimsækja grunnskólana og kynna mikilvæga starfsemi og forvarnir sem stuðla að fræðslu og samfélagsþátttöku.

Við teljum það fullkomlega á færi skólastjórnenda, í samvinnu við stjórn foreldrafélags viðkomandi skóla, að meta og þekkja muninn á óæskilegri markaðssetningu annars vegar og málefnum er varða öryggi og lýðheilsu hins vegar. Því skorum við á borgaryfirvöld að treysta skólastjórnendum til þess að vega og meta hvaða vörur, frístundir eða tómstundir eru kynntar innan veggja grunnskóla til forvarnar og fræðslu.

Við erum fulltrúar stórs hóps foreldra sem sinnir foreldrastarfi í grunnskólum Breiðholts. Þetta starf er okkar ástríða og áhugamál. Markmið okkar er að efla og auðga líf allra barna í hverfinu. Því er það einlæg ósk okkar að núverandi fyrirkomulag verði tekið til endurskoðunnar sem allra fyrst.



Virðingarfyllst, fyrir hönd foreldrafélaga allra grunnskóla í Breiðholti:

Stjórn foreldrafélags Ölduselsskóla

Stjórn foreldrafélags Breiðholtsskóla

Stjórn foreldrafélags Seljaskóla

Stjórn foreldrafélags Hólabrekkuskóla

Stjórn foreldrafélags Fellaskóla


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×