Innlent

Börn í Reykjavík fengu ekki tannbursta: „Þeir eru að mismuna börnum“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Mismununin er á grundvelli þeirra reglna sem forsvarsmennirnir setja, þeir sem stjórna borginni,“ segir Kristín Heimisdóttir.
"Mismununin er á grundvelli þeirra reglna sem forsvarsmennirnir setja, þeir sem stjórna borginni,“ segir Kristín Heimisdóttir.
Tannlæknafélag Íslands fékk ekki heimild til að gefa grunnskólabörnum í Reykjavík tannburstagjafir á árlegri tannverndarviku sem lauk síðasta föstudag. Óskað var eftir heimild hjá skóla- og frístundasviði, sem ekki fékkst. Gjafirnar voru veittar öllum tíundu bekkingum utan höfuðborgarsvæðisins.

Reglur borgarinnar kveða á um að ekki megi gefa börnum í grunnskóla gjafir, séu á þeim merkingar. Tannlæknafélagið hugðist gefa börnunum tannbursta, tannþráð og tannkrem í fræðsluskyni og vakti það töluverða athygli þegar fregnir bárust af því að ekki hefði fengist leyfi fyrir gjöfunum. Um var að ræða vörur frá fimm framleiðendum, en nær ómögulegt er að fá vörur sem ekki eru merktar framleiðenda.

Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, segist ósátt fyrir hönd reykvískra barna. „Auðvitað er þetta mismunun. En mismununin er á grundvelli þeirra reglna sem forsvarsmennirnir setja, þeir sem stjórna borginni. Þeir eru að mismuna börnum og það er ekkert annað sem við getum gert en að fara eftir reglunum,“ segir Kristín í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Vill leyfa fyrirtækjum að gefa gjafir með forvarnargildi

Tannlæknafélagið fékk þó heimild fyrir gjöfunum á síðasta ári. Mbl.is fékk þá þær upplýsingar frá grunnskólaskrifstofu að ákveðið hefði verið að leyfa gjafirnar á þeim forsendum að um væri að ræða verkefni sem stuðlaði að bættri tannheilsu barna. Kristín segir það þó vekja athygli að heimildin var veitt í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, en aðspurð segist hún ekki vilja svara til um hvort hún teli það hafa haft áhrif á ákvörðun borgarinnar. Hún beinir þeirri spurningu til viðeigandi aðila.

Embætti landlæknis stendur fyrir tannverndarviku á ári hverju og var hún nú dagana 2. – 7. febrúar. Vikan var helguð umfjöllum og fræðslu um sykurmagn í mat, sælgæti og drykkjum og mikilvægi þess að draga almennt úr sykurneyslu. Kjörorð tannverndarviku var „Sjaldan sætindi og í litlu magni“. Af þessu tilefni fengu allir tíundu bekkingar landsins heimsókn frá tannlæknum úr Tannlæknafélagi Íslands og tannlæknanemum í Háskóla Íslands.

Ekki náðist í formann skóla- og frístundasviðs við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×