Enski boltinn

John Stones óskar eftir því að vera seldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Stones.
John Stones. Vísir/Getty
John Stones, miðvörður Everton, hefur lagt fram formlega ósk til félagsins um að vera seldur en Chelsea hefur sýnt þessum efnilega varnarmanni mikinn áhuga síðustu vikur.

BBC segir frá þessu á vefsíðu sinni í kvöld en nafn Stones hefur verið afar áberandi í ensku miðlunum að undanförnu.

Englandsmeistarar Chelsea hafa þegar boðið 20 og 26 milljónir punda í leikmanninn en Everton hafnaði báðum tilboðum sem og 30 milljóna tilboði sem Chelsea á að hafa boðið líka í leikmanninn.

Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Everton, hefur lýst því yfir að leikmaðurinn sé ekki til sölu og samkvæmt frétt BBC hefur engin yfirlýsing komið frá Everton eftir þetta útspil Stones.

Everton keypti John Stones frá Barnsley í febrúar 2013 og borgaði um þrjár milljónir punda fyrir hann.

Það er búist við því að John Stones verði í næsta landsliðshópi Englendinga sem verður tilkynntur á sunnudagskvöldið. Fyrsti leikur Everton eftir landsliðsfríið er á móti Chelsea á Goodison Park.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×