Enski boltinn

Lögregla kölluð til á æfingu Swansea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Chico Flores virðist eiga erfitt þessa dagana og ekki bætti úr skák sjálfsmark hans gegn Tottenham um helgina.

Kalla þurfti til lögreglu á æfingu Swansea á föstudaginn þar sem upp úr sauð á milli miðvarðarins Flores og Garry Monk að því er Daily Mail greinir frá. Þar segir að Flores hafi tekið sér múrstein í hönd til að leggja áherslu á skoðun sína. Talið er að móðir yngri leikmanns hafi tilkynnt atvikið til lögreglu sem mætti á svæðið.

Í yfirlýsingu frá Swansea er staðfest að lögregla hafi mætt á æfingu félagsins. Komið hafi til orðaskipta Flores og Monk sem ekki sé óalgengt á æfingum leikmanna. Ekkert alvarlegt hafi þó átt sér stað.

Samkvæmt heimildum Daily Mail rauk Flores út af liðsfundi Swansea fyrr í síðustu viku. Michael Laudrup, stjóri Swansea, valdi Flores engu að síður í liðið gegn Tottenham á sunnudaginn. Flores skoraði sjálfsmark í 3-1 tapi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×