Enski boltinn

Liverpool þarf að vinna 13-0 ef City gerir jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool. Vísir/Getty
Manchester City og Liverpool berjast um enska meistaratitilinn í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn en Manchester City er með pálmann í höndunum.

Manchester City er með tveggja stiga forskot á Liverpool auk þess að vera með mun betri markatölu og nægir í raun jafntefli til þess að tryggja sér annan meistaratitilinn á þremur árum.

Markatala Manchester City er 100-37 eða plús 63 en markatala Liverpool er 99-49 eða plús 50. Liverpool mun skora fleiri mörk en City takist liðinu að vinna upp muninn og "nægir" því bara þrettán marka sigur til að taka toppsætið.

Liverpool hefur raðað inn mörkum á leiktíðinni en jafnframt fengið alltof mörg mörk á sig á sama tíma. Bjartsýnustu stuðningsmenn félagsins sjá fyrir sér Liverpool-liðið kannski skora þessi þrettán mörk en hinsvegar er jafnvel enn minni líkur á því að liðinu takist að halda marki sínu hreinu á sama tíma.



Manchester City verður enskur meistari ef ...

 ...liðið vinnur West Ham á heimavelli.

 ... liðið gerir jafntefli og Liverpool vinnur ekki Newcastle með meira en 13 marka mun.

 ... liðið tapar á sama tíma og Liverpool tekst ekki að vinna sinn leik á móti Newcastle.



Liverpool verður enskur meistari ef ...

 ...liðið vinnur Newcastle á heimavelli á sama tíma og Manchester City tapar á móti West Ham.

 ... liðið vinnur Newcastle með þrettán marka mun á sama tíma og Manchester City nær bara jafntefli á móti West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×