
Hann bendir á að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ársnemendum framhaldsskólanna fækki um 916. Hins vegar fækki þeim samtals um 1.608 frá fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014.
„Við getum ekki brugðist við þessum breytingum fyrr en á miðju næsta ári. Umræðan hefur nánast einungis snúist um skóla sem þurfa að vísa frá nemendum sem eru 25 ára og eldri. Hins vegar er nemendum að fækka í öllum skólum.“
MR tekur inn um 250 nýnema á hverju ári. Yngvi segir stefna í að skólinn geti einungis tekið inn um 175 nýnema þegar skólaárið 2015/2016 hefst, ef frumvarpið verður að lögum. Skólinn þyrfti þá að leggja niður fjögur stöðugildi.
„Hins vegar vitum við ekki hvernig staðan verður í vor og ég vona að frumvarpið taki breytingum á Alþingi.“

„Það segir sig sjálft að þegar það er svona mikill niðurskurður í fjármagni til skólanna, og þegar þú fækkar nemendum þetta mikið eins og raunin virðist ætla að verða, að það muni hafa í för með sér fækkun í stéttinni,“ segir Guðríður.
„Það hefur verið nokkuð óljóst hvernig standa á að þessum breytingum og ekki einungis vegna þessara áforma um að fækka nemendaígildunum heldur líka vegna styttingaráformanna. Um leið og þú fækkar áföngum til stúdentsprófs þá þarftu færri kennara. En ég held enn í vonina um að stjórnvöld veiti áfram svigrúm fyrir þessa fjölbreytni og sveigjanleika sem við höfum verið svo stolt af í framhaldsskólunum.“