Enski boltinn

Tveir sterkustu knattspyrnumenn Englands mætast í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adebayo Akinfenwa og George Elokobi.
Adebayo Akinfenwa og George Elokobi. Nordic Photos / Getty
Kraftakarlarnir George Elokobi og Adebayo Akinfenwa verða í eldlínunni í kvöld þegar lið þeirra, Wolves og Gilllingham, mætast í ensku C-deildinni.

Þarna fara tveir af allra sterkustu leikmönnum enska boltans en Elokobi er í uppáhaldi hjá mörgum knattspyrnuáhugamönnum hér á landi. Hann er nú liðsfélagi Björns Bergmanns Sigurðssonar hjá Wolves sem fær vonandi tækifærið í kvöld.

Fáir varnarmenn eru betur í stakk búnir en Elokobi að glíma við Akinfenwa sem er um 100 kg og getur tekið 180 kg í bekkpressu. Hann hefur átt magnaðan feril í neðri deildunum á Englandi til þessa og skorað 138 mörk í tæplega 400 leikjum.

Akinfenwa er einnig þekktur fyrir að vera sterkasti knattspyrnumaður heims, ef mark er takandi á FIFA-tölvuleikjunum vinsælu.

Akinfenwa kom til Gillingham í sumar en hann lék reyndar einnig með liðinu fyrir þremur árum síðan. Hann hefur skorað fimm mörk í fjórtán leikjum á tímabilinu til þessa.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og hefst klukkan 19.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×