Innlent

Segir bílaleigusvindl ekki eiga sér stað

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bílaleigur fá felld niður vörugjöld af bílum að hluta til en með ströngum skilyrðum.
Bílaleigur fá felld niður vörugjöld af bílum að hluta til en með ströngum skilyrðum. fréttablaðið/daníel
„Ég get fullyrt að þessi maður fari með rangt mál eins og gerist oft hjá þingmönnum sem hafa ekki kynnt sér málin nægilega vel,“ segir Bergþór Karlsson, formaður bílaleigunefndar Samtaka ferðaþjónustunnar og framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar.

Bergþór vísar þar í orð Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um að ástæða fyrir mikilli fjölgun bílaleiga sé meðal annars sú að stórfyrirtæki stofni leigur, kaupi bíla og leigi síðan starfsmönnum sínum á kostnaðarverði.

„Af 140 bílaleigum sem eru skráðar á Íslandi er að finna bílaleigur með enga starfsmenn og engin skráð símanúmer. Ég hef rökstuddan grun um að fyrirtæki séu að stofna bílaleigur til að kaupa bílana á afslætti og jafnvel selja eftir ákveðinn tíma. Þetta þarf ráðherra að athuga frekar,“ segir Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið en hann vildi ekki gefa upp hvaða fyrirtæki hann væri með heimildir fyrir að stunduðu slík viðskipti.

Bílaleigur fá felld niður vörugjöld af bílum að hluta til en að hámarki eina milljón króna. Hægt er að selja bílana aftur eftir fimmtán mánuði og þá þarf að framvísa bílaleigusamningum við sölu til að komast hjá því að endurgreiða vörugjöldin.

Bergþór Karlsson
„Þeir sem fá þennan afslátt eru undir ströngu eftirliti Samgöngustofu og tollsins. Þeir þurfa reglulega að sýna bílaleigusamninga, sem mega að hámarki vera upp á þrjár vikur og ekki til tengdra aðila. Þeir þurfa að hafa opna starfsstöð, bílaleiguleyfi og allan fyrirtækjarekstur á hreinu,“ segir Bergþór. 

Hann segir bílaleigum hafa fjölgað um meira en helming á síðustu sex árum en ástæðan sé ekki svindl stórfyrirtækja heldur hafi fleiri stofnað bílaleigur með notuðum og gömlum bílum. 

„Ég fór sjálfur yfir lista með þessum 140 bílaleigum í síðustu viku og það er ekkert gruggugt við hann. Þarna eru litlar leigur með notaða bíla, til dæmis hótel og réttingarverkstæði. Þegar um gamla bíla er að ræða fá aðilarnir ekki afslátt af vörugjöldunum. Bílaleiguleyfi og afsláttur af vörugjöldum er ekki sami hluturinn. Það þarf að uppfylla ströng skilyrði til að fá afsláttinn.“

Bergþór segir að ný lög séu væntanleg um leigu á ökutækjum sem muni auka öryggi viðskiptavina. „Með þessari drusluvæðingu í bílaleigubransanum þá þarf að koma stífari rammi svo ekki sé verið að leigja út bíla í lélegu ástandi. Við fögnum því og það gæti þýtt að þessi mikla fjölgun bílaleiga hætti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×