Innlent

Þingmaður setur stórt spurningamerki við bílaleigur landsins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá árunum 2008 hefur ferðamönnum fjölgað um 60 prósent. Á sama tíma hafa heildarskatttekjur ekki hækkað um nema 18 prósent. Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.

Þá sagðist hann hafa fastar heimildir fyrir því að ástæða fyrir mikilli fjölgun bílaleiga væri meðal annars sú að stórfyrirtæki stofni leigur, kaupi bíla og leigi síðan starfsmönnum sínum á kostnaðarverði.  Hann segir töluverðan fjölda bílaleiga vera án starfsmanna og án símanúmera.

„Ég hef enga trú á að það sé markaður fyrir 140 bílaleigur á Íslandi,“ segir Þorsteinn í samtali við Vísi.

Hann segir að ef farið sé í símaskrá eða á leitarvefi komi upp ótal nöfn á bílaleigum sem einungis séu með farsímanúmer.

Ákveðinn afsláttur er veittur á bílaleigubíla sem fluttir eru inn hingað til lands. Almennt þurfa bílaleigur að hafa nýjar bifreiðar í útleigu í 15 mánuði áður en hægt er að endurselja þær.

„Ég hef rökstuddan grun um að fyrirtæki séu að leika þennan leik.“

Þorsteinn segir þetta brýningu til fjármálaráðherra og iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem fara með þessi mál að taka þetta föstum tökum og fara yfir hvernig skattinnheimtu af ferðaþjónustu er háttað og hvert ekki sé hægt að bæta þar úr.

Svört starfsemi í ferðaþjónustu hér á landi hefur aukist undanfarin ár samkvæmt nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Greiningin var kynnt á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×