Innlent

Undir hæl melludólga

Snærós Sindradóttir skrifar
Nýtt húsnæði Stígamót fluttu nýverið í nýtt húsnæði við Laugaveg 170. Þjónusta við vændiskonur hefur snarminnkað eftir að Kristínarhúsi var lokað.Fréttablaðið/daníel
Nýtt húsnæði Stígamót fluttu nýverið í nýtt húsnæði við Laugaveg 170. Þjónusta við vændiskonur hefur snarminnkað eftir að Kristínarhúsi var lokað.Fréttablaðið/daníel

Síðan Kristínarhúsi var lokað í ársbyrjun hefur þjónusta við vændiskonur sem vilja komast úr aðstæðum sínum snarminnkað. Þetta kom fram í máli Guðrúnar Jónsdóttir, talskonu Stígamóta, við kynningu ársskýrslu samtakanna á föstudag.

Guðrún sagði að Stígamót hefðu reynt að fá stjórnvöld til að koma á fót verkefni til að aðstoða konur sem vilja losna úr vændi. „Við stungum upp á því við innanríkisráðherra og félagsmálaráðherra að komið yrði á fót miðlægu teymi sem aðstoðar konurnar betur en við gátum gert. Þær þurfa allar lögfræðiaðstoð, þær þurfa heilbrigðisaðstoð og félagsaðstoð og við gætum svo komið inn til að takast á við sjálft vændið.“

Guðrún segir að nú sé í raun enginn með málaflokkinn á sínum herðum. „Það er mikil hætta á að mansalsmál verði ósýnileg aftur því það er enginn sem heldur utan um þau eða ákveður miðlægt á hvaða þjónustu hver kona hefur rétt. Við viljum allra helst vinna með stjórnvöldum en það hefur ekki tekist í þessum málum og af því höfum við áhyggjur.“

Kristínarhúsi var komið á fót í september árið 2011. Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta fyrir síðasta ár dvöldu ellefu konur og fimm börn í húsinu. Vandi þeirra var fjölþættari en starfskonur Stígamóta bjuggust við.

„Hópurinn sem við fengum í húsið var miklu verr settur en við höfðum átt von á. Þar vorum við að glíma stanslaust við mikla fíkniefnaneyslu og alvarlega geðræna kvilla,“ segir Guðrún.

Hún segir að erfitt hafi reynst að koma konunum undan melludólgum.

„Íslensku konurnar voru undir hælnum á skipulögðum íslenskum glæpasamtökum og hinar erlendu undir bæði íslenskum og erlendum gengjum.“

Í ársskýrslu Stígamóta kemur þó fram að stærsta áskorunin hafi verið að sjá um þau börn sem komu í Kristínarhús með mæðrum sínum og oft hafi þurft að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um alvarlega vanrækslu. Það hafi í þremur tilfellum leitt til þess að börn voru vistuð í tímabundið fóstur, fjarri mæðrum sínum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.