Innlent

Forseti tekur próf við eigin deild

Bjarki Ármannsson skrifar
Teitur segist ekki vita til fleiri dæma um að forseti taki próf við sína eigin deild.
Teitur segist ekki vita til fleiri dæma um að forseti taki próf við sína eigin deild. Mynd/Háskóli Íslands
Teitur Jónsson, forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands, mun í dag verja doktorsritgerð sína við deildina. Þetta er að öllum líkindum í fyrsta sinn í sögu skólans sem forseti tekur próf við sína eigin deild.

„Þetta er í sjálfu sér ekki mjög óvænt,“ segir Teitur. Hann bendir á að sífellt fleiri kennarar stundi nám að einhverju leyti samhliða starfi sínu. „Meira að segja var varaforseti deildarinnar að verða doktor í síðasta mánuði,“ segir Teitur en Bjarni Elvar Pjetursson varði ritgerð sína í mars.

Teitur á von á því að sjá marga nemendur sína við doktorsvörnina en vikulegur fyrirlestur Tannlækningastofnunar Háskólans verður felldur niður í dag og tannlæknanemar á fjórða til sjötta ári skyldaðir að mæta á vörnina í staðinn. Hann segist hæfilega taugaóstyrkur við tilhugsunina um að sitja próf fyrir framan nemendur sína.

„Jú, ég var ekki búinn að hugsa um það mikið þar til nýlega,“ segir Teitur. Hann á þó ekki von á öðru en að standa sig með prýði.

„Maður er ekki fæddur í gær,“ segir hann. „Svo er búið að samþykkja þetta pródúkt á ýmsum stöðum, þannig að þetta er í raun bara uppskerudagur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×