Innlent

Kanna vilja Hvergerðinga til sameiningar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Um 2300 manns búa í Hveragerði þar sem íbúarnir munu samfara bæjarstjórnarkosningunm í maí lýsa skoðun sinni á hugsanlegri sameiningu við önnur sveitarfélög.
Um 2300 manns búa í Hveragerði þar sem íbúarnir munu samfara bæjarstjórnarkosningunm í maí lýsa skoðun sinni á hugsanlegri sameiningu við önnur sveitarfélög. Fréttablaðið/Valli
Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt að halda skoðanakönnun samfara sveitarstjórnarkosninugum í maí „til að fá fram leiðbeinandi línur frá bæjarbúum“ og það hvort þeir vilja að Hveragerði sameinist í stærra sveitarfélag.

Upphaf málsins var tillaga fulltrúa minnihluta Á-listans um að kosið yrði í Hveragerði og Ölfusi um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Farið yrði í formlegar viðræður um sameiningu reyndist vera meirihluti á báðum stöðum.

„Enginn vafi er á því að bæði sveitarfélögin myndu hagnast verulega á sameiningu. Miklir fjármunir myndu sparast í yfirstjórn auk þess yrðu öll samskipti mun auðveldari og samkeppnisstaðan sterkari,“ rökstuddu fulltrúar Á-listans tillögu sínu. Þeir bentu á að með sameiningunni yrði til stærsta sveitarfélag á Suðurlandi með rúmlega 4.200 íbúa.

Furðurlegur framgangsmái segir meirihlutinn

„Þessi framgangsmáti er í hæsta lagi furðulegur og brýtur raun gegn bæði lögum og venjum um sameiningar sveitarfélaga,“ lýstu fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks aðferðarfræðinni sem Á-listinn lagði til. Meirihlutinn lagði síðan fram breytingartillögu um að samhliða bæjastjórnarkosningunum yrði spurt um afstöðu Hvergerðinga til sameiningar við önnur sveitarfélög.

„Ef svarið er já verði gefnir 3-4 kostir um sameiningu sem viðkomandi getur þá valið um,“ segir í tillögu bæjarstjórnarinnar sem samþykkt var.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, segir niðurstöður í skoðanakönnun samhliða bæjarstjórnarkosningum verða ráðgefandi.
„Að okkar mati er það jákvætt að gefa bæjarbúum kost á því að tjá sig um fleiri sameiningarmöguleika en einungis við Ölfuss,“ tóku fulltrúar Á-listans undir tillögu sjálfstæðismanna. „Þó að hér sé um ráð gefandi skoðanakönnun að ræða en ekki bindandi atkvæðagreiðslu um sameiningu teljum við þessa leið gefa komandi bæjarstjórnum mikilvægar upplýsingar um hvaða sameiningarmöguleikar hugnast bæjarbúum best.“

Vinnur að því sem bæjarbúa vilja


Aðspurð segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri ýmsa valkosti auk sameiningar við Ölfus hafa verið rædda, meðal annars sameiningu sveitarfélaga í Árnesssýslu, með og án Árborgar, sameiningu sveitarfélaga á öllu Suðurlandi og sameiningu við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Sjálf segist Aldís ekki tilbúin að gefa upp sína skoðun núna. Aðalatriðið sé að íbúarnir gefi vísbendingu. „Fólk þarf að meta hvort það vilji að Hveragerði sé sjálfstætt sveitarfélag með eigin stjórn eða hvort það telji hag okkar betur borgið í samvinnu og stærra samfélagi. Ég mun bara vinna að því sem bæjarbúar vilja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×