Innlent

Engin pappírsframtöl send heim

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Karl Óskar Magnússon, sérfræðingur hjá Ríkisskattstjóra.
Karl Óskar Magnússon, sérfræðingur hjá Ríkisskattstjóra.
Engin pappírsframtöl voru send heim til skattgreiðenda í ár. Aldraðir sem ekki eiga eða hafa aðgang að tölvu geta snúið sér til Ríkisskattstjóra og fengið aðstoð þar, að sögn Karls Óskars Magnússonar, sérfræðings hjá embættinu.

„Þeir geta hringt til okkar og við förum þá inn í framtalið þeirra og skilum því fyrir þá. Hjá þessum aldurshópi þarf yfirleitt bara að rúlla yfir þetta. Þeir geta líka komið til okkar í eigin persónu.“

Karl segir að þeir sem endilega vilji skila skattframtali á pappír geti gert það. „Þeir geta þá prentað út autt eyðublað og skilað því útfylltu. Einhverjir hafa beðið um sundurliðunarblað en við mælumst til að menn skili rafrænt ef þeir geta.“

Þurfi framteljendur að senda vottorð eða fylgigögn með framtali má senda þau rafrænt eða á pappír, að því er Karl greinir frá.

Í fyrra fengu rúmlega sex þúsund einstaklingar af um 260 þúsund framteljendum skattframtal á pappír sent heim. „Þeir sem hafa fengið pappírsframtal sent heim síðustu árin eru bara þeir sem skiluðu á pappír árið áður. Þeim hafði fækkað jafnt og þétt,“ segir Karl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×