Innlent

Skakkir félagar með bíl í togi svínuðu á lögreglunni í Hafnarfirði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Menn með bíl í togi vöktu athygli lögreglumanna í lok ágúst 2012.
Menn með bíl í togi vöktu athygli lögreglumanna í lok ágúst 2012. Fréttablaðið/Pjetur
Tæplega fertugur karlmaður var í gær dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir að aka bíl, sem dreginn var af öðrum bíl, undir áhrifum kókaíns og amfetamíns.

Lögreglumenn sem óku eftir Flatahrauni í Hafnarfirði ákváðu að athuga með ökuréttindi og ástand ökumanna bíla þar sem annar var með hinn í togi í Helluhrauni. Ökumennirnir reyndust báðir undir áhrifum fíkniefna.

Fyrir dómi bar maðurinn að bróðir hans hafi beðið hann að koma með að sækja bíl. Hann hafi síðan á leiðinni hitt þriðja manninn og beðið hann að draga bílinn sem átti að sækja.

Hann hafi setið farþegamegin þegar bílinn á undan hafi óvænt rokið af stað. Enginn annar hafi verið í bílnum og hann því neyðst til að setjast undir stýrið.

Þá bar maðurinn að fyrir framan lögreglustöðina hafi ökumaður fremri bílsins síðan „svínað“ beint fyrir framan lögregluna sem þurft hafi að bremsa til að keyra ekki beint inn í hliðina á honum. Ferðinni hafi verið heitið á verkstæði bak við lögreglustöðina.

Með vísan í vitnisburð annarra sagði Héraðsdómur Reykjaness frásögn mannsins ótrúverðuga. Auk þess að vera dæmdur í fangelsi var hann sviptur ökuréttindum ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×