Enski boltinn

Fjögur efstu spila upp á líf og dauða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildin er í fríi um helgina en það kemur þó ekki í veg fyrir tvo risaleiki í enska fótboltanum. Fjögur efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar mætast innbyrðis í 5. umferð ensku bikarkeppninnar.

Liðið í 3. sæti, Manchester City, tekur á móti toppliði Chelsea klukkan 17.15 í dag og á morgun klukkan 16.00 mætast síðan liðin í 2. sæti, Arsenal, og Liverpool sem er í 4. sætinu.

Tveir aðrir innbyrðisleikir eru á milli úrvalsdeildarliða (Sunderland-Southampton klukkan 12.45 í dag og Everton-Swansea klukkan 13.30 á morgun) en þeir falla algjörlega í skuggann af fyrrnefndum leikjum. Stöð 2 Sport sýnir fimm af átta leikjum helginnar, alla úrvalsdeildarslagina og svo einnig leik Íslendingaliðsins Cardiff við Wigan kl. 15.00 í dag.

Fyrri úrslit krydda einnig viðureignir toppliðanna því Chelsea hefur unnið báða leiki sína á móti Manchester City á leiktíðinni (2-1 á Brúnni og 1-0 á Etihad) og Liverpool vann 5-1 stórsigur á Arsenal á dögunum eftir að hafa komst í 4-0 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Í viðbót við þetta bætist síðan orðastríð Jose Mourinho og Manuel Pellegrini, stjóra Chelsea og City, sem og sú staðreynd að Arsenal reyndi að kaupa Luis Suarez, stærstu stjörnu Liverpool, síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×