Enski boltinn

Wenger: Ekkert lið er ósigrandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Luis Suarez og Bacary Sagna í hanaslag í fyrri leik liðanna í vetur.
Luis Suarez og Bacary Sagna í hanaslag í fyrri leik liðanna í vetur. fréttablaðið/getty
Fyrsti leikur helgarinnar í enska boltanum er af stærri gerðinni. Þá tekur Liverpool á móti toppliði Arsenal í sannkölluðum stórslag.

Arsenal ferðast á Anfield með tveggja stiga forskot á keppinautana í farteskinu. Liverpool er átta stigum á eftir Arsenal í fjórða sætinu og þarf sárlega á sigri að halda til þess að vera með í baráttunni um titilinn. Það verður þó ekki auðvelt því Arsenal hefur ekki tapað síðustu átta leikjum sínum.

Þó að Arsenal sé á toppnum spá flestir því að annaðhvort Man. City eða Chelsea vinni deildina. Arsene Wenger, stjóri Arsenal, er meðvitaður um það.

„Við viljum sannfæra fólk um að við höfum gæðin til þess að vinna deildina,“ sagði Wenger en Arsenal er á leið í mjög erfiðar vikur. Man. Utd bíður í næstu viku, svo er bikarslagur gegn Liverpool og loks leikur gegn Evrópumeisturum Bayern München í Meistaradeildinni.

„Við höfum barist fyrir því að komast í þessa stöðu og því verðum við að njóta okkar líka og gefa allt sem við eigum. Það væri gott að byrja þennan erfiða mánuð á flottum sigri.“

Sigur Chelsea á Man. City á dögunum sýndi að City-liðið er langt frá því að vera ósigrandi.

„Það er ekkert lið ósigrandi. Það eru mörg gæðalið í ensku úrvalsdeildinni og því verða lið að vera á tánum í hverjum leik til þess að eiga möguleika á titlinum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×