Innlent

Mér finnst mjög gaman að túra

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er ánægð að vera heima núna. Er til dæmis að undirbúa verk fyrir tónlistarhátíðina Tectonics í Hörpu í apríl þar sem Sinfóníuhljómsveitin mun spila nútímaverk eftir íslensk og erlend tónskáld,“ segir Bergrún sem lauk sautján mánaða tónleikatúr um heiminn rétt fyrir jól.
"Ég er ánægð að vera heima núna. Er til dæmis að undirbúa verk fyrir tónlistarhátíðina Tectonics í Hörpu í apríl þar sem Sinfóníuhljómsveitin mun spila nútímaverk eftir íslensk og erlend tónskáld,“ segir Bergrún sem lauk sautján mánaða tónleikatúr um heiminn rétt fyrir jól. Fréttablaðið/GVA
Það er jólalegt í Þingholtunum þegar ég kný dyra hjá Bergrúnu Snæbjörnsdóttur hornleikara. Þær dyr eru nánast faldar bak við einn fegursta sýprusrunna sem sést á Íslandi en fótspor í snjónum vísa leiðina. Úr forstofunni er gengið inn í eldhús og þaðan í litla stofu. Þar hefjum við spjall meðan espressokannan bruggar kaffi á eldavélinni.Mig langar að gera hvort tveggja, að spila og vinna í eigin tónsmíðum en það hefur verið pínu erfitt síðasta eitt og hálfa árið. Við tókum Sigur Rósartúrinn í átta sprettum á sautján mánuðum og komum heim á milli. Þá reyndi ég að sinna öðrum verkefnum,“ segir Bergrún. Þegar á hana er gengið kveðst hún til dæmis hafa nýlega átt verk á tónleikum í Hafnarborg sem voru partur af tónleikaröð sem nefnist Hljóðön og er skipulögð af Þráni Hjálmarssyni.

„Svo hélt ég raftónleika með vinum mínum í sumar í Hörpu. Þar vorum við með okkar eigin tónsmíðar,“ segir hún og bætir við hæglátlega: „Ég hef verið svolítið virk í hópi sem nefnir sig S.L.Á.T.U.R. en það er stytting á Samtök listrænt ágengra tónskálda umhverfis Reykjavík. Hann er duglegur að halda tónleika og þá fæ ég að vera með.“Samgleði fremur en samkeppni

Bergrún hefur komið til um fjörutíu landa á sinni 26 ára löngu ævi. Hún var tvítug þegar hún hélt í tónleikaferðalag með Björk að kynna Volta-albúmið. Spilaði þá meðal annars í hinu volduga hringleikahúsi í Verona á Ítalíu sem byggt var fyrir Krists burð. Sagan segir að litlu hafi munað að Bergrún hafi misst af túrnum því síminn hennar hafi verið rafmagnslaus í tvær vikur, einmitt þegar verið var að smala saman tíu málmblásarastelpum á ákveðnum aldri til að spila með Björk.Hið mikilvæga símtal hafi svo komið um leið og batteríið var hlaðið. „Þetta var kannski ekki alveg svona dramatískt. Ég hugsa að það hefði verið reynt aftur,“ segir hún brosandi. „Það var ekki úr svo rosalega mörgum stelpum að velja á Íslandi. En það var mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni.“Hún kveðst ekki hafa fundið fyrir öfund yfir þeirri upphefð sem hún hefur hlotið og kannast ekki við ríg innan greinarinnar. „Ég upplifi frekar samgleði í brassinu en samkeppni,“ segir hún.Í nýafstöðnum túr var Bergrún ein af átta hljóðfæraleikurum, fyrir utan Sigur Rósarmenn sjálfa. „Við erum bara aukahljóðfæraleikarar,“ tekur Bergrún fram. „Erum að hjálpa til að gefa fyllingu í hljóminn og ýmis smáatriði.“ Kveðst alveg laus við að þurfa að gefa eiginhandaráritanir eftir tónleika en segir beðið eftir Sigur Rósarmönnum baksviðs enda séu þeir gríðarlega vinsælir.„Oftast voru fjögur til átta þúsund manns á hverjum tónleikum, stundum tíu til tólf þúsund, til dæmis í Wembley Arena og Madison Square Garden í New York. Það er frábært að sjá hvað íslenskar hljómsveitir eru búnar að ná langt í útlöndum og laða marga áheyrendur að, ég held að Íslendingar geri sér almennt varla grein fyrir því.“Bílstjórinn alblóðugur

Hvernig er svo að flakka spilandi um heiminn? Er hver dagur ævintýri? „Það er misjafnt. Stundum eru þeir ólíkir hver öðrum en ef tónleikar eru dag eftir dag renna þeir dálítið saman. Samt er alltaf gaman,“ segir Bergrún. Ferðast er í næturrútum milli staða, enda segir hún flest stærri bönd hafa þann hátt á. Í Sigur Rósartúrnum hafi 30 til 40 manns verið í för, tæknifólk og annað aðstoðarfólk auk hljóðfæraleikaranna. „Mér finnst mjög gaman að túra en held samt að það sé ekki fyrir alla því það getur verið erfitt á köflum,“ segir hún. „Það sem bjargar er að vera með frábæru fólki eins og ég hef verið.“Var einhver tími fyrir djamm? „Já, já, fólk reynir að hafa gaman þegar það getur. Sigrún Jónsdóttir og Kjartan Hólm ásamt Jónsa í Sigur Rós stofnuðu DJ-teymið Triple Nipple og voru mjög dugleg að plötusnúðast eftir tónleika og spila áhugaverða tónlist fyrir hópinn. Það var eiginlega fastur punktur.“

Það versta við svona ferðir segir Bergrún að þurfa að spila hvernig sem heilsufarið er, án þess að sýna veikleikamerki. „Við fengum alveg bullandi flensu á köflum en það var bara þegar nóróveiran herjaði sem skapaðist algert neyðarástand og fólk vantaði í vinnu til skiptis. Það er til dæmis ekki hægt að vera ælandi að spila á blásturshljóðfæri.“Spurð um eftirminnilegustu viðkomustaðina nefnir Bergrún fyrst Chile sem hún heimsótti í Voltatúrnum með Björk. „Það var dálítið sérstök stemning í Santiago. Fólk var á mjög varðbergi gagnvart manni og mér leið eins og geimveru en ég hefði ekki viljað missa af að koma þangað. Annars er Taívan uppáhaldslandið mitt. Við fórum þangað í þessum túr og áttum frídaga þar, fórum á markaði og að skoða ýmis jarðfræðileg undur. Landið er ótrúlega fallegt.“Var aldrei neitt að óttast á ferðalögunum? „Reyndar lentum við í umferðaróhappi síðasta vor. Vorum sofandi í rútunni á leið frá Arizona til Nýja-Mexíkó en vöknuðum í svarta myrkri við að hún var komin út af veginum og kastaðist til. Allt var á tjá og tundri, hurðin farin af og bílstjórinn alblóðugur því rúðurnar höfðu brotnað á hann. Fremsta dekkið hægra megin hafði sprungið. En bílstjórinn var alger hetja, ríghélt um stýrið og hélt rútunni á réttum kili þannig að enginn meiddist alvarlega.“

Saknaði ÞingholtannaBergrún var fyrstu tvö æviárin á Varmalandi í Borgarfirði, næstu sjö á Hofsósi í Skagafirði og þaðan flutti hún í Voga á Vatnsleysuströnd. Hún segir foreldra sína, Snæbjörn Reynisson skólastjóra og Dórótheu Herdísi Jóhannsdóttur kennara, hafa sungið í kirkjukórum en að öðru leyti ekki tengjast tónlist. Sjálf hóf hún að læra á blokkflautu á Hofsósi. „En um leið og ég flutti suður vildi ég fá gullhljóðfæri. Fór í tónlistarskóla í Njarðvíkum og svo í Reykjanesbæ,“ lýsir hún og kveðst hafa verið í Lúðrasveit Suðurnesja ásamt því að stunda nám í fjölbrautaskólanum þar. Hún er með BA-próf í hornleik og er nú í námi í tónsmíðum í Listaháskólanum.Skyldi hún strax hafa verið ákveðin í hvað hún vildi verða? „Nei, ég held ég hafi ekki vitað neitt,“ segir hún rólega og bætir við að hún hafi byrjað í heimspeki í Háskólanum en hætt í henni þegar Volta-ævintýrið hófst.

Býstu við að fara í fleiri tónleikaferðir um heiminn? „Það hef ég ekki hugmynd um. Ég er ánægð að vera heima núna. Er til dæmis að undirbúa verk fyrir tónlistarhátíðina Tectonics í Hörpu í apríl þar sem Sinfóníuhljómsveitin mun spila nútímaverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Svo ætla ég að klára tónsmíðanámið í vor og stefni í mastersnám erlendis næsta haust.“En hefur þú orðið fyrir áhrifum á ferðalögum þínum sem nýtast þér í tónsmíðunum? „Örugglega óbeint. Ég get þó ekki sagt að einhver ákveðinn hljóðheimur erlendis hafi haft áhrif á mig en ég hef verið hrifin af vídeólist lengi og hef gaman af að blanda saman tónlist og myndlist.“

Unnusti Bergrúnar er Albert Finnbogason, hljóðmaður og tónlistarmaður sem meðal annars spilar í hljómsveitinni Grísalappalísu sem er nýbúin að gefa út plötu. Bergrún kveðst hafa sönglað eitt lag á henni.„Ég er engin söngkona en það má alveg kreista eitthvað upp úr sér,“ segir hún hlæjandi. En tekur kærastinn því með þögn og þolinmæði að sitja heima í festum meðan hún er á flakkinu? „Jaaá, ég kom nú alltaf heim öðru hvoru. Svo kíkti hann líka í heimsókn til mín í London í lok túrsins.“Saknaðir þú Íslands þegar þú varst á ferðalögunum? „Aðallega þegar ég var í miðju biblíubeltinu í Bandaríkjunum, Mið- og Suðurríkjunum. Auðvitað er áhugavert að kynnast alls konar menningu en þarna eru endalausar gáma-og keðjuverslanir og maður skynjar svo sterkt hvað fólkið er þröngsýnt og afturhaldssamt. Þá fer maður að sakna Þingholtanna.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.