Erlent

Umdeildur leiðtogi borinn til grafar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, og Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, standa þarna sitt hvoru megin við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og eiginkonu hans, Söru Netanjahú, á minningarathöfn í gær.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, og Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, standa þarna sitt hvoru megin við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og eiginkonu hans, Söru Netanjahú, á minningarathöfn í gær. nordicphotos/AFP
Ráðamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi voru meðal þeirra sem vottuðu Aríel Sharon virðingu sína, þegar haldin var minningarathöfn um hann í gær.

Hans var þar minnst sem mikilfenglegs þjóðarleiðtoga, en aðrir urðu til þess að rifja upp grimmilegan feril hans sem fjöldamorðingja.

Sharon var forsætisráðherra Ísraels frá 2001 þar til hann fékk heilablóðfall í ársbyrjun 2006. Eftir það lá hann í dái í átta ár þangað til hann lést nú á laugardaginn.

Áður en hann varð forsætisráðherra hafði hann átt langan feril sem hermaður, herforingi og hermálaráðherra og bar þá ábyrgð á mörgum stríðsglæpum.

„Lát hans er enn ein áminningin um áralöng mannréttindabrot hafa engu skilað í þá átt að færa okkur nær friði milli Ísraela og Palestínumanna,“ segir Sarah Lea Whitson hjá samtökunum Human Rights Watch, sem hafa eins og fleiri mannréttindasmtök óspart minnt á dekkri hliðarnar á ferli Sharons.

Þekktust eru þar fjöldamorðin í Sabra og Sjatila árið 1982, þar sem ábyrgð hans var óbein í þeim skilningi að stjórnaði þeim ekki sjálfur, en einnig hefur verið rifjað upp að árið 1953, þegar hann var 25 ára, var hann yfirmaður ísraelskrar vígasveitar sem tók að sér að hefna fyrir árásir Palestínumanna. Hann stjórnaði þá meðal annars árás á bæinn Kibja á Vesturbakkanum. Meira en 40 hús voru þar sprengd í loft upp og kostuðu þær aðgerðir 69 íbúa þar lífið. Um helmingur hinna látnu voru konur og börn. Sharon sagðist síðar hafa haldið að húsin væru tóm.

Eftir að Sharon komst til valda árið 2001 sneri hann að nokkru við blaðinu og tók meðal annars af skarið um að draga ísraelska herinn burt frá Gasasvæðinu. Hann tók einnig þann pól í hæðina, sem var óvenjulegt meðal ísraelskra ráðamanna, að Ísraelar ættu ekki endilega skilyrðislausan rétt til alls landsvæðis Palestínumanna á hinum hernumda Vesturbakka og Gasasvæði.

Þessi breytta afstaða féll í misjafnan farveg meðal Ísraela, sem sumir hverjir töldu hann þar hafa svikið eigin málstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×