Erlent

Um hvað er kosið í Egyptalandi?

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Maður greiðir atkvæði í Kaíró í morgun.
Maður greiðir atkvæði í Kaíró í morgun. Nordicphotos/AFP
Meira en 52 milljónir íbúa Egyptalands hafa kosningarétt í landinu og geta í dag og á morgun greitt atkvæði um nýja stjórnarskrá, sem bráðabirgðastjórn landsins hefur látið semja.

Allar líkur eru til þess að stjórnarskráin verði samþykkt, og styrkist þá til muna staða bráðabirgðastjórnarinnar, sem her landsins kom til valda síðastliðið sumar eftir að hafa steypt af stóli lýðræðislega kjörnum forseta, Mohammed Morsi.

Morsi situr enn í fangelsi og á yfir höfði sér fangelsisdóma.

Hér að neðan er gerð grein fyrir nokkrum helstu breytingunum, sem gerðar hafa verið á stjórnarskrá landsins og bornar eru undir atkvæði landsmanna.

Borgaraleg stjórn

Í nýju stjórnarskránni er talað um að stjórn landsins verði „borgaraleg“. Þetta hefur farið fyrir brjóstið á sumum strangtrúarmönnum, enda vilja þeir skilja orðið sem svo að það sé samheiti fyrir „veraldlega stjórn“, þar sem trúin gegnir engu hlutverki.

Hervald

Herinn skipar varnarmálaráðherra ríkisstjórnarinnar næstu tvö kjörtímabil.  Þá verða fjárreiður hersins áfram á hans vegum, án neins eftirlits af hálfu stjórnvalda. Og áfram verður hægt að draga almenna borgara fyrir herdómstól, en eingöngu fyrir beinar árásir á hermenn eða hernaðarmannvirki.

Íslömsk lög

Í stjórnarskránni er engu að síður tekið fram að meginreglur íslamskra laga verði áfram grundvöllur allrar löggjafar í landinu. Sambærilegt ákvæði hefur verið í fyrri stjórnarskrám landsins, en í stjórnarskrá Morsis, sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, var þetta ákvæði mun ítarlegra.

Þá verður það í höndum hæstaréttar, en ekki æðstu klerka landsins, að skera úr um hvort landslög standist meginreglur íslamskra laga.

Stjórnmálaflokkar

Bannað verður að stofna stjórnmálaflokka, sem starfa á grundvelli trúarbragða. Þetta ákvæði kemur sér illa fyrir samtök á borð við Bræðralag múslima, sem starfrækt hefur Frelsis- og réttlætisflokkinn, flokk Mohammeds Morsis fyrrverandi forseta.

Trúfrelsi

Trúfrelsi verður „algert“ í Egyptalandi samkvæmt nýju stjórnarskránni, en í stjórnarskránni frá síðasta kjörtímabili var talað um að trúfrelsi „njóti verndar“, auk þess sem trúfrelsið náði eingöngu til íslams, kristni og gyðingdóms.

Kvenréttindi

Í nýju stjórnarskránni er ríkinu gert skylt að vernda konur gegn hvers kyns ofbeldi. Einnig ber ríkinu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að fulltrúar kvenna verði nægilega margir í helstu valdastofnunum landsins, þar á meðal á löggjafarþingi og hjá dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×