Enski boltinn

Sigur hjá Solskjær í fyrsta leik - varamennirnir sáu um þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff City eru komnir áfram í 4. umferð ensku bikarkeppninnar eftir 2-1 sigur í Newcastle í dag í fyrsta leik liðsins undir stjórn Norðmannsins Ole Gunnar Solskjær.

Ole Gunnar Solskjær var þekktur fyrir það á sínum tíma að koma inná sem varamaður og skora fyrir Manchester United og það voru tveir varamenn sem tryggði honum sigur í sínum fyrsta leik sem knattspyrnustjóri velska liðsins.

Papiss Cisse kom Newcastle í 1-0 á 62. mínútu eftir flott hlaup frá Moussa Sissoko en skömmu áður hafði Ole Gunnar sett meiri þunga í sóknina með því að skipta Fraizer Campbell inná.

Varamaðurinn Craig Noone skoraði með sinni fyrstu snertingu og jafnaði metin á 73. mínútu með skoti af löngu færi og Fraizer Campbell skoraði síðan sigurmarkið sjö mínútum síðar.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff og fékk eina gula spjald velska liðsins í leiknum.

Mynd/NordicPhtos/Getty
Sigurmnark Fraizer Campbell.Mynd/AFP
Fraizer Campbell fagnar hér sigurmarki sínu.Mynd/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×