Myndin segir ákveðna sögu en í staðinn fyrir sögumann þá er það myndmálið sem segir söguna. Nú er hægt að streyma myndinni í Vimeo-On-Demand en í byrjun desember verður hún fáanleg á DVD og á VOD-þjónustunni.
Að sögn Péturs kviknaði áhugi hans á að gera svona mynd þegar hann gerði stuttmynd í svipuðum dúr árið 2010. „Ég var náttúrulega mikill aðdáandi Ron Fricke sem skaut Koyaanisqatsi og gerði þessa mynd. Þá áttaði ég mig á því að þetta var einhvern veginn ekki nóg. Ísland býður upp á svo margt þannig að þetta var ekki nóg fyrir mig.“

Pétur segir myndina vera eins og sjónræna hugleiðslu. „Þú tekur myndina inn og rennur með henni, svo vaknarðu eftir á og hugsar: „Hey, þetta var eitthvað nýtt.“ Ég man þegar við sýndum hana í bíó þá var fólk fyrstu tuttugu mínúturnar að borða poppkornið sitt og síðan þegar það dettur meira inn í myndina þá leggur það frá sér poppið og opnar bara munninn. Myndin kallar eiginlega á þig en við sérhæfum okkur í að breyta tímaskyninu, við vinnum mikið með „timelapse“ og fleiri brögð sem breyta tímanum í báðar áttir og opnar nýja heima.“
Pétur mun nú taka pásu frá kvikmyndagerð en hann lamaðist fyrir neðan mitti eftir slys á nýársnótt árið 2011. Hann er staddur í Suður-Þýskalandi og býr sig undir læknamat fyrir svokallað „phase 1 human trial“ þar sem prófað verður að græða rafskaut á neðanverða mænuna en það er í fyrsta skipti sem aðferðin verður prófuð á manni. „Aðalástæðan fyrir því að ég er í pásu er að það tekur úr þér kraft að gera mynd af þessari gráðu,“ en gerð myndarinnar tók heil þrjú ár.