Enski boltinn

Tap í fyrsta deildarleik Solskjær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Solskjær og Allardyce á hliðarlínunni í dag.
Solskjær og Allardyce á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Getty
Ole Gunnar Solskjær fékk ekki þá draumabyrjun á stjóraferli sínum í ensku úrvalsdeildinni sem hann hafði óskað sér.

Solskjær var nýverið ráðinn knattspyrnustjóri Cardiff sem fékk West Ham í heimsókn í dag og tapaði, 2-0, þrátt fyrir að West Ham hafi misst mann af velli með rautt spjald. Carlton Cole og Mark Noble skoruðu mörk Lundúnarliðsins, það síðara á lokamínútum leiksins.

James Tomkins, leikmaður West Ham, fékk að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik eftir að hann fékk sína aðra áminningu í leiknum.

Andy Carroll kom inn á sem varamaður í leiknum og lagði upp síðara mark sinna manna. Þetta var hans fyrsti leikur á tímabilinu en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla.

Sigurinn var kærkominn fyrir stjórann Sam Allardyce en hann hefur síðustu daga og vikur verið talsvert í kastljósi fjölmiðla ytra vegna lélegs gengis West Ham á tímabilinu til þessa.

Aron Einar Gunnarsson sat allan leikinn á varamannabekk Cardiff sem er í átjánda sæti deildarinnar með átján stig. West Ham er einnig með átján stig en með betra markahlutfall.

Cardiff hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum en liðið vann síðast deildarleik um miðjan desember, gegn West Brom.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×