Enski boltinn

Wenger: Özil ekki kominn yfir vítaklúðrið

Mesut Özil reiður út í sjálfan sig eftir að láta Manuel Neuer verja frá sér víti.
Mesut Özil reiður út í sjálfan sig eftir að láta Manuel Neuer verja frá sér víti. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir MesutÖzil enn í sárum eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu á upphafsmínútum Meistaradeildarleiksins gegn Bayern München á miðvikudaginn.

„Er í lagi með hann núna? Svo sannarlega ekki því 48 klukkustundir er frekar stuttur tími til að komast yfir svona lagað,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag en liðið tekur á móti Sunderland á morgun.

Wenger segir Özil í sömu sporum og Dennis Bergkamp sem klúðraði vítaspyrnu á 90. mínútu í undanúrslitum bikarsins gegn Manchester United 1999.

PeterSchmeichel varði spyrnuna, United vann leikinn í framlengingu manni færri og endaði tímabilið á því að vinna þrennuna. Sá hollenski var ekki vinsæll eftir vítaklúðrið og tók aldrei aftur víti fyrir liðið. Hann er eftir sem áður í guðatölu hjá stuðningsmönnum í dag.

„Við sáum dæmi um svona eins og Bergkamp 1999. Hann neitaði að taka víti aftur eftir klúðrið gegn United. En nú fær hann styttu af sér fyrir utan völlinn,“ sagði Wenger en stytta af Hollendingnum verður afhjúpuð fyrir leikinn.

„Við gefum Özil tíma til að komast yfir þetta. Það er hluti af hans starfi að komast yfir svona vonbrigði og sýna hvernig hann svarar mótlætinu,“ sagði Arsene Wenger.

Dennis Bergkamp í baráttu við Jaap Stam í bikarleiknum fræga á Villa Park 1999.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Tvö vítaklúður á Emirates | Myndband

Þeir Mesut Özil og David Alaba brenndu af vítaspyrnum í fyrri hálfleik Arsenal og Bayern München í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Özil baðst afsökunar á vítaklúðrinu

Mesut Özil, miðjumaður Arsenal, bað stuðningsmenn félagsins afsökunar fyrir að hafa klikkað á vítaspyrnu í upphafi fyrri leiksins á móti Bayern München í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Wenger: Verðum að sætta okkur við reglurnar

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að það hefði verið dýrkeypt að brenna af vítaspyrnu snemma leiks gegn Bayern í kvöld. Þeir þýsku unnu, 2-0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×