Enski boltinn

Januzaj hafnar því að spila fyrir Kósóvó

Adnan Januzah er eftirsóttur þegar kemur að landsliðum.
Adnan Januzah er eftirsóttur þegar kemur að landsliðum. Vísir/Getty
Adnan Januzaj, leikmaður Manchester United, verður ekki í liði Kósóvó þegar það spilar sinn fyrsta landsleik í næsta mánuði.

Þetta hefur faðir leikmannsins staðfest en Kósóvó er eitt fjölmargra landsliða sem þessum efnilega leikmanni býðst að spila með.

Kósóvó hefur fengið leyfi frá FIFA til að spila landsleiki gegn þjóðum sem viðurkenna það sem fullvalda ríki. Kósóvó lýsti einhliða yfir sjálfstæði undan Serbíu í byrjun árs 2008.

Kósóvó mætir Haítí í vináttuleik 5. mars og vonuðust menn til að Januzaj myndi koma við sögu í þeim leik. Svo verður þó ekki.

AbedinJanuzaj, faðir Adnans, segir að sonur sinni eigi enn eftir að ákveða fyrir hvaða þjóð hann vilji spila en honum stendur til boða að vera hluti af belgíska, albanska, tyrkneska, serbneska eða enska landsliðinu.

„Ég fæddist í Kósóvó og mig langar að sonur minn spili fyrir mitt landslið. En þetta er viðkvæmt mál því knattspyrnusamband Kósvó er ekki hluti af FIFA. Kannski mun Adnan spila fyrir Kósóvó einn daginn en ekki núna. Það mun ekki gerast að svo stöddu,“ segir Abedin Januzaj.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×