Fótbolti

Þær kínversku eru sterkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands.
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/KSÍ
Ísland mætir Kína í hreinum úrslitaleik um annað sæti A-riðils á Algarve-mótinu í Portúgal. Bæði lið eru með þrjú stig en stelpurnar okkar eru með lakara markahlutfall og þurfa því á sigri að halda til að komast í bronsleik mótsins.

Æfingar hafa gengið vel eftir frábæran 2-1 sigur á Noregi á föstudag. „Það eru allir í góðu standi enda alvöru stelpur sem hugsa um sig eins og atvinnumenn,“ sagði Freyr Alexandersson eftir æfingu liðsins á Algarve í gær.

Freyr sagði að fyrirfram hefði þjálfarateymið vitað minnst um kínverska liðið af andstæðingum þess á mótinu.

„Við settum smá kraft í að skoða þeirra lið um helgina og mér sýnist að það sé erfiður leikur í vændum. Kínversku stelpurnar eru duglegar, samstillar og sterkar. Þær virðast vera í mjög góðu formi,“ sagði hann.

Hann reiknar með því að gera nokkrar breytingar á liði Íslands. „Við viljum gefa fleiri leikmönnum tækifæri til að kynnast því að spila með landsliðinu. Það hefur gengið vel eins og sást á leiknum gegn Noregi. Svona lagað tekur tíma en leikmenn hafa lagt sig fram á æfingum og hafa verið móttækilegir fyrir breytingum.“

Freyr segir að allir leikmenn séu klárir í slaginn fyrir leikinn í dag. „Ólína er sú eina sem hefur verið tæp en hún er öll að koma til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×