Enski boltinn

Mikið í húfi hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney gæti spilað með United í kvöld.
Wayne Rooney gæti spilað með United í kvöld. Nordic Photos / Getty
David Moyes hefur sett Manchester United það markmið að vinna liðinu sæti í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar. Liðið mætir Sunderland í fyrri undanúrslitaviðureign liðanna í kvöld.

United féll úr leik í enska bikarnum um helgina og er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur. Titilvonir United heima fyrir virðast þó fyrst og fremst fólgnar í deildarbikarnum þetta árið.

„Við urðum að taka mið af bikarleiknum þegar við undirbjuggum okkur fyrir leikinn gegn Sunderland því það eru aðeins tveir dagar síðan við mættum Swansea,“ sagði Moyes við enska fjölmiðla.

„Það hefur ávallt skipt okkur miklu máli að vinna alla þá leiki sem við spilum og komast í alla úrslitaleiki eigum við þess kost. Nú eigum við tvo leiki gegn Sunderland sem við viljum vinna.“

Michael Carrick, Patrice Evra og Nemanja Vidic hvíldu allir í leiknum gegn Swansea og ættu að vera með United í kvöld. Wayne Rooney hefur verið að glíma við meiðsli í nára en gæti komið við sögu í leiknum.

Meiri óvissa er í kringum Robin van Persie sem hefur verið að glíma við meiðsli í læri.

Leikurinn hefst klukkan 19.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×