Enski boltinn

Man. Utd tapaði fyrir botnliðinu

Tom Cleverley er hér svekktur. Hann var slakur í leiknum og tekinn af velli.
Tom Cleverley er hér svekktur. Hann var slakur í leiknum og tekinn af velli. nordicphotos/getty
Ófarir Man. Utd halda áfram og liðið tapaði sínum þriðja leik í röð í kvöld. Að þessu sinni gegn Sunderland í deildabikarnum, 2-1. Eina huggun Man. Utd er að þetta var fyrri leikur liðanna og liðið á því enn möguleika á því að komast á Wembley.

Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleik en í uppbótartíma fengu gestirnir frá Manchester blauta tusku í andlitið.

Aukaspyrna Sunderland endaði á fjærstöng þar sem var ódekkaður maður. Hann kom boltanum á hættusvæðið og barátta Ryan Giggs og Phil Bardsley endaði með því að Giggs setti boltann í eigið net.

Man. Utd hóf síðari hálfleik af krafti og fyrirliðinn Nemanja Vidic jafnaði leikinn með góðu skallamarki þegar aðeins sjö mínútur voru búnar af hálfleiknum.

Tæpum hálftíma fyrir leikslok var dæmt umdeilt víti á Man. Utd. Cleverley virtist þá ekki koma við Adam Johnson en aðstoðardómarinn ákvað að flagga víti.

Fabio Borini tók vítið og skoraði af miklu öryggi. 2-1 fyrir heimamenn.

Man. Utd reyndi hvað það gat að jafna leikinn á lokamínútunum en hafði ekki erindi sem erfiði gegn botnliði ensku úrvalsdeildarinnar.

Þó svo það sé aðeins 7. janúar er Man. Utd búið að tapa þrem leikjum á árinu og það í þrem mismunandi keppnum. Enn eitt neyðarlega metið sem liðið nær undir stjórn David Moyes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×