Enski boltinn

Demba Ba hetja Chelsea annan leikinn í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Chelsea vann gríðarlega mikilvægan sigur á Swansea á Liberty Stadium í Wales í ensku úrvalsdeildinni í dag. Með sigrinum eru Chelsea aðeins tveimur stigum eftir Liverpool í toppsæti deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins allt þar til Chico Flores fékk rautt spjald eftir rúmlega korter. Afar klaufalegt hjá Spánverjanum sem fékk tvö réttmæt gul spjöld með aðeins tveggja mínútna millibili og Swansea skyndilega manni færri það sem eftir lifði leiks.

Chelsea hóf strax stórsókn í átt að marki Swansea en gekk illa að brjóta þéttan varnarmúr heimamanna. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega klukkutímaleik sem fyrsta mark leiksins kom og var þar að verki Demba Ba með snyrtilega afgreiðslu eftir sendingu frá Nemanja Matic.

Swansea reyndi að henda leikmönnum framar á völlinn og þrátt fyrir að fá ágætis færi náðu þeir ekki að jafna metin og tóku lærisveinar Jose Mourinho stigin þrjú í dag. Swansea situr í fimmtánda sæti eftir leikinn, þremur stigum fyrir ofan Fulham í átjánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×