Enski boltinn

Schmeichel: Vita ekki hvað það þýðir að vera leikmaður Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Schmeichel á mjög góðum degi með Manchester United.
Peter Schmeichel á mjög góðum degi með Manchester United. Mynd/NordicPhotos/Getty
Peter Schmeichel, fyrrum markvörður Manchester United og goðsögn á Old Trafford, er ekki ánægður með nokkra leikmenn United-liðsins og hefur gagnrýnt þá fyrir að vita hreinlega ekki hvað það þýði að vera leikmaður félagsins.

„Það eru nokkrir leikmenn í búningsklefanum sem eru ekki á ráða við þá ábyrgð sem fylgir því að vera leikmaður Manchester United. Þeir taka það í það minnsta ekki eins alvarlega og mér finnst að þeir eigi að gera," sagði hinn fimmtugi Peter Schmeichel við BBC en Daninn vann ensku deildina fimm sinnum með Manchester United.

„Mér finnst þetta vera mikil synd. Það eru nokkrir leikmenn í liðinu sem eru ekki að standa sig og nú er komið að knattspyrnustjóranum að fara taka ákvörðun um hvort hann ætli að halda þessum leikmönnum eða losa sig við þá. Það væri jafnvel betra að koma þá með unga leikmenn inn í liðið í staðinn," sagði Peter Schmeichel.

Peter Schmeichel er á því að það sé mikilvægara fyrir Manchester United að losa sig við slæmu eplin frekar en að kaupa nýja leikmenn til félagsins. Það fylgir þó ekki sögunni hvaða leikmenn danski markvörðurinn er að tala um enda er nóg af mönnum í United-liðinu sem hafa ekki verið að standa sig á þessu tímabili.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×