Enski boltinn

Boro stakk af frá 1000 króna bókasafnsreikningi

Aitor Karanka.
Aitor Karanka.
Starfsmaður bókasafns í Doncaster er allt annað en sáttur við þjálfarateymi enska knattspyrnuliðsins Middlesbrough.

Er liðið var að spila í Doncaster á dögunum bað stjóri Boro, Aitor Karanka, aðstoðarmenn sína um að ljósrita nokkur blöð fyrir sig.

Þeir örkuðu niður á bókasafn til þess að ljósrita. Það var minnsta málið. Þegar kom að því að greiða fyrir vinnuna þá gátu aðstoðarmennirnir ekki borgað. Ástæðan var sú að bókasafnið tók ekki við kreditkortum og aðstoðarmennirnir voru ekki með neitt lausafé á sér.

Þeir lofuðu þó að koma daginn eftir og borga reikninginn sem var upp á tæpar 1.000 kr. Ekkert bólaði á greiðslu og þá fór starfsmaður bókasafnsins upp á hótel liðsins. Þar hitti hann fyrir Karanka sem skildi ekkert hvert maðurinn af bókasafninu var að fara.

Boro-menn yfirgáfu bæinn án þess að greiða fyrir ljósritunina og það sætti þessi skeleggi starfsmaður safnsins sig illa við.

Hann skrifaði bréf til félagsins og fékk þá loksins svar. Það kom frá Karanka sjálfum. Hann baðst afsökunar og bauð bókasafnstarfsmanninum á hvaða leik sem hann vildi með Boro.

"Ég er ánægður með afsökunarbeiðnina og þetta höfðinglega boð. Ég vil samt bara að þeir greiði sína skuld. Þá er ég kátur," sagði bókasafnsfræðingurinn harður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×