Enski boltinn

Gylfi: Vinstri kanturinn er ekki mín uppáhaldsstaða

Gylfi Þór Sigurðsson hefur ekki leikið með Tottenham upp á síðkastið vegna meiðsla. Hjörtur Hjartarson hitti á Gylfa út í London á dögunum og tók við hann spjall sem var birt í Messunni á mánudag.

"Villas-Boas og Sherwood eru mjög ólíkir þjálfarar. Ég myndi ekki segja að Sherwood sé gamaldags en þetta er mjög einfalt hjá honum. Bara vinna leikina og æfa vel. Ég held að flestir af strákunum kunni mjög vel við hann," sagði Gylfi við Hjört.

Íslenski landsliðsmaðurinn vill helst leika í holunni fyrir aftan framherjana eða á miðjunni en hefur þurft að leysa af á kantinum hjá Spurs sem er ekki beint hans uppáhald.

"Ég hef verið í eitt og hálft ár á vinstri kantinum og það er frekar langur tími ef ég á að segja eins og er," sagði Gylfi og glotti við tönn.

"Ég nýt þess auðvitað að spila en vinstri kanturinn er langt frá því að vera mín uppáhaldsstaða. Ef það gerist ekkert á næstunni þá þarf ég að kíkja á mín mál."

Gylfi var orðaður við önnur félög í janúar en það var lítið til í þeim fréttum.

"Alls ekki. Það er nýbúið að skipta um þjálfara og mér líður vel hérna í frábæru liði. Ég er í toppliði á Englandi og það er því vitlaust að drífa sig í burtu nema það væri rétti staðurinn til að fara á. Ég verð því að bíða og sjá hvað gerist."

Hér að ofan má sjá viðtalið við Gylfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×