Enski boltinn

Skrtel var nálægt því að yfirgefa Liverpool síðasta sumar

Martin Skrtel fagnar fyrra markinu gegn Arsenal um síðustu helgi.
Martin Skrtel fagnar fyrra markinu gegn Arsenal um síðustu helgi. Vísir/getty
Martin Skrtel, miðvörður Liverpool, var nálægt því að yfirgefa félagið síðasta sumar en er nú ánægður að svo fór ekki.

Slóvakanum gekk illa að festa sér sæti í byrjunarliði Brendans Rodgers á síðasta tímabili en hann kom 25 sinnum við sögu í úrvalsdeildinni og spilaði sjö leiki í Evrópudeildinni.

Napoli frá Ítalíu og rússneska liðið Zenit frá Pétursborg voru bæði áhugasöm um leikmanninn en hann ákvað á endanum að berjast um byrjunarliðssæti hjá Liverpool.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég íhugaði ekki að fara frá Liverpool. Síðasta tímabil var erfitt fyrir mig. Ég var mikið á bekknum seinni hluta leiktíðar,“ segir Skrtel í viðtali við Liverpool Echo.

Hann er nú orðinn einn af lykilmönnum liðsins og skoraði eins og frægt er orðið tvö mörk í stórsigrinum gegn Arsenal um síðustu helgi.

„Það er ekki auðvelt að yfirgefa félag eins og Liverpool því þetta er enn eitt af bestu félögum heims. Það var alls ekki auðvelt að ætla fara flytja sig annað eftir sex ár hjá Liverpool,“ segir Martin Skrtel.

„Fyrir þetta tímabil ákvað ég bara berjast fyrir minni stöðu og leggja mikið á mig. Ég vildi sýna fólki að ég gæti byrjað alla leiki. Þegar ég fékk svo tækifærið gerði ég mitt besta til að hjálpa liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×