Innlent

Siggi hakkari dæmdur í fangelsi fyrir kyn­ferðis­brot

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA

Sigurður Ingi Þórðarson, eða Siggi hakkari eins og hann hefur verið kallaður, var sakfelldur í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot með því að hafa með blekkingum tælt dreng, sem þá var 17 ára. Hann var dæmdur í fangelsi í átta mánuði og gert að greiða drengnum 500.000 krónur í miskabætur. Héraðsdómur hafði áður dæmt drengnum 800.000 krónur í bætur. Jafnframt skal hann greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.



Um er að ræða tvö skipti þar sem Sigurður blekkti drenginn til annarra kynferðismaka en samræðis, en sannað þótti að maðurinn hafi talið drengnum trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir og sjá til þess að hann myndi ekki missa ökuréttindi sín, þrátt fyrir ölvunarakstur ef drengurinn hefði við hann kynferðismök. Þá var talið sannað að maðurinn hefði fulla vitneskju um aldur drengsins.



„Ákærði taldi A trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir, opna bankareikning í erlendum banka í nafni A og leggja fjármuni inn á þann reikning, gefa honum bifreið og sjá til þess að brotaþoli myndi ekki missa ökuréttindi sín þrátt fyrir ölvunarakstur, ef A hefði við hann kynferðismök. Með því að beita framangreindum blekkingum, fékk ákærði A til að fróa sér í tvígang og hafa við sig munnmök í eitt skipti auk þess sem ákærði hafði einu sinni munnmök við A,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness.



Ríkissaksóknari skaut málinu til hæstaréttar og krafðist þess að refsing Sigurðar yrði þyngd. Hæstiréttur breytti ekki dómi um refsingu, en lækkaði miskabæturnar um 300.000 krónur. „Engin gögn eru í málinu um miska brotaþola. Þá verður af framburði hans fyrir dómi ekki ráðið að atferli ákærða hafi valdið honum verulegum sálrænum erfiðleikum. Að þessu gættu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþolanum 500.000 krónur í miskabætur,“ segir í dómnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×