Erlent

Hafa grætt leg í níu konur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Læknar við sjúkrahúsið í Gautaborg höfðu lengi unnið að undirbúningi aðgerðanna.
Læknar við sjúkrahúsið í Gautaborg höfðu lengi unnið að undirbúningi aðgerðanna. Mynd/AP
„Þetta er alveg ný tegund af skurðaðgerðum,” segir Mats Brännström, læknir við sjúkrahúsið í Gautaborg. „Við höfum ekki haft neina kennslubók til að styðjast við.”

Hann hefur, ásamt kollegum sínum við sjúkrahúsið, grætt leg í níu konur. Í samtali við AP fréttastofuna segir hann að öllum konunum vegni vel eftir aðgerðina. Allar hafi þær í hyggju að verða þungaðar sem fyrst og eignast börn.

Ýmist hafa konurnar fæðst án legs eða það hefur verið tekið úr þeim með skurðaðgerð. Legin, sem grædd hafa verið í þær, hafa mæður þeirra eða aðrir kvenkyns ættingjar gefið.

Fyrsta aðgerðin var gerð í september árið 2012. Allar konurnar fór heim til sín nokkrum dögum eftir aðgerðina. 

Aðgerðir af þessu tagi eru umdeildar, meðal annars vegna þess að taka þarf leg úr öðrum konum til að græða í hinar. Enn er ekki vitað hvort aðgerðirnar muni bera þann árangur, sem að er stefnt, nefnilega að konurnar geti eignast börn.

Á tveimur öðrum stöðum hafa verið gerðar tilraunir til að græða leg í konur. Það var gert í Tyrklandi og í Sádi-Arabíu, en þeim konum tókst ekki að verða þungaðar.

Læknar í Bretlandi, Ungverjalandi og víðar hafa í hyggju að gera sams konar aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×