Enski boltinn

Varamennirnir mikilvægir í fimmta sigri Everton í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Everton vann í dag góðan 3-1 útisigur á Fulham í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Botnlið Fulham var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komst nokkrum sinnum nálægt því að skora.

Everton-menn mættu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og komust yfir á 51. mínútu þegar skot varamannsins Stevens Naismith fór af David Stockdale, markverði Fulham, og í netið.

Ashkan Dejagah jafnaði leikinn fyrir heimamenn á 71. mínútu, en það var svo annar varamaður, Kevin Mirallas, sem kom Everton yfir á ný, ellefu mínútum fyrir leikslok.

Naismith gulltryggði svo Everton fimmta sigurinn í röð þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Lokastaðan 3-1 á Craven Cottage.

Everton er í 5. sæti úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á eftir Arsenal, sem situr í hinu dýrmæta 4. sæti sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Fulham situr eftir sem áður í botnsæti deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×