Innlent

Verðið myndi lækka verulega

Freyr Bjarnason skrifar
Illugi Gunnarsson sagði að frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla væri í vinnslu.
Illugi Gunnarsson sagði að frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla væri í vinnslu.
Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri Iðnú og Iðnmenntar, telur að hægt verði að lækka verð á námsefni framhaldsskólanema verulega ef og þegar það verður fáanlegt í auknum mæli í rafrænu formi í framtíðinni.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði á ársfundi Iðnmenntar að frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla væri í vinnslu hvað varðar rafrænt námsefni.

„Ef ríkið býr til lagaumhverfi fyrir okkur gætum við hugsanlega innheimt námsgögn með skólagjöldum til nemenda,“ segir Heiðar Ingi og telur að verðið gæti lækkað um 30 til 40 prósent. „Í slíku viðskiptaumhverfi þurfum við ekki að hafa áhyggur af ólöglegu niðurhali. Þá erum við að tala um verulega lækkun á verði námsgagna til nemenda.“

Í frumvarpinu um framhaldsskólana er gert ráð fyrir „að skólum verði heimilt, með sérstöku leyfi ráðherra, að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Gert er ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma fyrir tilteknar námsgreinar“.

Heiðar Ingi segir ef frumvarpið fer tiltölulega fljótt í gegnum þingið ætti Iðnmennt að geta hafið tilraunaútgáfu næsta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×