Enski boltinn

Henderson hetja Liverpool gegn Swansea

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jordan Henderson tryggði Liverpool stigin þrjú í stórskemmtilegum 4-3 sigri á Swansea í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lítið var um fína drætti í varnarleik liðanna og er óhætt að segja að áhorfendur leiksins hafi fengið nóg fyrir peninginn.

Öll toppliðin unnu sína leiki í gær og þurftu þeir rauðklæddu á stigunum þremur að halda til að halda í við þau. Heimamenn fengu sannkallaða óskabyrjun þegar Daniel Sturridge skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins tvær mínútur. Henderson bætti við öðru marki Liverpool stuttu seinna gegn gangi leiksins en gestirnir frá Wales höfðu haft undirtökin í leiknum.

Jonjo Shelvey sem gekk til liðs við Swansea í sumar frá Liverpool kom Swansea á blað með stórglæsilegu skoti örfáum mínútum eftir mark Henderson og liðu aðeins fjórar mínútur þar til Wilfried Bony hafði jafnað metin með skalla. Daniel Sturridge skoraði þriðja mark Liverpool þegar tíu mínútur voru til hálfleiks og fóru heimamenn með 3-2 forskot inn í hálfleikinn.

Í seinni hálfleik voru áhorfendur enn að setjast niður þegar Swansea jafnaði aftur metin. Þá var dæmd vítaspyrna á Martin Skrtel fyrir að toga niður Bony í vítateig Liverpool. Bony steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi.

Jafnræði var með liðnum það sem eftir lifði leiksins en það voru heimamenn sem náðu að koma inn sigurmarki. Jordan Henderson fylgdi þá eftir eigin skoti og ýtti boltanum yfir línuna framhjá Michel Vorm í marki Swansea.

Heimamenn héldu út það sem eftir lifði leiks og voru líklegri að bæta við þegar skot Steven Gerrard hafnaði í stönginni en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og lauk leiknum með 4-3 sigri Liverpool í fjörugum leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×