Enski boltinn

Giroud skoraði tvö í öruggum sigri Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsenal átti ekki í vandræðum með að leggja Sunderland að velli í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en heimameinn unnu öruggan sigur, 4-1.

Oliver Giroud, sem hefur verið í skammarkróknum eftir vandræði í einkalífinu, byrjaði leikinn og þakkaði traustið með tveimur fyrstu mörkum leiksins.

Það síðara var afar klaufalegt af hálfu Sunderland-manna og þá sérstaklega Phils Bardsley sem átti slaka sendingu til baka á markvörðinn. Frakkinn komst inn í hana og skoraði.

Tomas Rosicky bætti við þriðja markinu fyrir hálfleik og Laurent Koscielny skoraði það fjórða á 57. mínútu, 4-0. Emanuele Giaccherini minnkaði muninn með marki fyrir gestina á 81. mínútu. Lokatölur, 4-1.

Arsenal er því áfram í öðru sæti úrvalsdeildarinnar með 59 stig, einu stigi á eftir toppliði Chelsea sem vann Everton fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×