Enski boltinn

Rodgers: Þurfum að komast í Meistaradeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers stýrir æfingu.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir liðið þurfa komast í Meistaradeildina til þess að taka næsta skref og fá betri leikmenn til liðsins.

Liverpool er í góðum málum í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á undan Tottenham sem er í fimmta sæti. Liðið er að spila vel og skorar mikið af mörkum.

Rodgers átti í smá basli á leikmannamarkaðinum síðastliðið sumar og aftur í janúar en honum gekk illa að fá þá leikmenn til liðsins sem hann vildi. Hann er á því að Meistaradeildin sé lykillinn að því að fá stóru nöfnin á Anfield.

„Ég tel það mikilvægt að við komumst í Meistaradeildina. Ef við ætlum að taka næsta skref er það staðurinn sem við þurfum að komast á,“ sagði Rodgers á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool gegn Swansea sem fer fram á morgun.

„Ég tók við liði sem hafnaði í áttunda sæti og við höfum verið að byggja það upp undanfarna 18 mánuði. Ef við komumst inn í bestu deildina mun það heilla öðruvísi leikmenn held ég. Þetta er mikilvægt fyrir liðið að mínu mati og vonandi tekst okkur ætlunarverkið í ár,“ segir Brendan Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×