Enski boltinn

Vidic staðfestir brottför frá United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nemanja Vidic segist aldrei munu gleyma kvöldinu í Moskvu vorið 2008 er United varð Evrópumeistari.
Nemanja Vidic segist aldrei munu gleyma kvöldinu í Moskvu vorið 2008 er United varð Evrópumeistari. Vísir/Getty
Serbinn Nemanja Vidic mun yfirgefa herbúðir Manchester United í sumar. Félagið birtir yfirlýsingu frá varnarmanninum á heimasíðu sinni í kvöld.

„Þetta er síðasta árið af samningi mínum og ég hef átt átta yndisleg ár hér. Árin hjá félaginu verða alltaf í minningunni þau bestu á ferlinum,“ segir Serbinn.

Vidic segir best fyrir sig að yfirgefa United á þessum tímapunkti og takast á við nýja áskorun. Hann vilji áfram spila í hæsta gæðaflokki.

„Nú mun öll mín orka fara í að standa mig eins vel og ég get út tímabilið með Manchester United. Ég vona að þetta bindi enda á getgátur um framtíð mína hjá félaginu,“ segir Serbinn sem ætlar að spila utan Englands.

„Það kemur ekki til greina að vera áfram á Englandi þar sem eina félagið sem ég væri til í að spila með hér er Manchester United.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×