Enski boltinn

Sér einna mest á eftir Toure

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Yaya Toure fagnar marki í leik með Manchester City.
Yaya Toure fagnar marki í leik með Manchester City. Vísir/Getty
Litlu mátti muna að Yaya Toure hefði gengið í raðir Arsenal árið 2003 en knattspyrnustjórinn Arsene Wenger sér enn eftir því að hafa misst af kappanum.

Toure er nú á mála hjá Manchester City þar sem hann hefur farið á kostum en þar áður lék hann hjá Barcelona þar sem hann vann allt sem hægt var að vinna.

Hann var tvítugur þar hann var til reynslu hjá Arsenal og tók þátt í æfingaleik á undirbúningstímabilinu. Wenger vildi semja við hann en Toure ákvað frekar að fara til Metalurh Donetsk í Úkraínu.

„Þetta er efst á listanum,“ sagði Wenger þegar hann var spurður um hversu mikið hann sjái eftir þessu. „En við skulum samt ekki gleyma því að við vorum með samkomulag við Yaya Toure og hann fór ekki til Úkraínu vegna þess að við vildum ekki semja við hann,“ bætti hann við.

Toure, sem er frá Fílabeinsströndinni, hóf atvinnumannaferil sinn í Belgíu og hefði þurft að sækja um atvinnuleyfi til að spila í Englandi á sínum tíma.

„Við höfum áður gert mistök í leikmannamálum en þetta voru engin mistök. Hann valdi að fara til Úkraínu þar sem hann þurfti ekki atvinnuleyfi til þess.“

Arsenal mætir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×