Fótbolti

Sara Björk skoraði en Rosengård er úr leik í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Vísir/Valli
Íslendingaliðið FC Rosengård fer ekki lengra í sænska bikarnum í fótbolta kvenna eftir 1-2 tap á heimavelli á móti Örebro í sextán liða úrslitum keppninnar í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði mark Rosengård.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir voru báðar í byrjunarliði FC Rosengård en liðið breytti um nafn í vetur eftir að hafa heitið LCB Malmö undanfarin ár.

Sanna Talonen kom Örebro í 1-0 strax á 14. mínútu en Sara Björk jafnaði með skalla efir aukaspyrnu frá Linu Nilsson. Rosengård-liðinu tókst ekki að bæta við marki og Sarah Michael skoraði sigurmark Örebro í uppbótartíma leiksins.

Þetta eru mjög óvænt úrslit enda varð Rosengård  sænskur meistari síðasta sumar og endaði 26 stigum á undan Örebro í töflunni.

Sara Björk var fyrirliði Rosengård-liðsins í þessum leik en hún var varafyrirliði liðsins á síðustu leiktíð.

Sara Björk og Þóra Björg eru nú á leiðinni til móts við íslenska kvennalandsliðið sem leikur sinn fyrsta leik í Algarve-bikarnum á miðvikudaginn þegar Ísland mætir Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×